Af hverju heilla fjöllin okkur upp úr skónum?

Um daginn heyrði ég mjög skemmtilegan þátt á Rás 1 sem ber heitið Fjöllin hafa vakað í umsjón Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur. Í þættinum er fjallað um hvernig fjöllin birtast víða í trúarbrögðum og listum og hvernig viðhorf okkar til þeirra hafa tekið breytingum í tímans rás. Farið er yfir hvernig fjöllin birtast í menningu og listum og því velt upp af hverju heilla fjöllin okkur svona upp úr skónum? 

Mig langar að deila þættinum með ykkur hér : Fjöllin hafa vakað

Persónulega er ég forfallinn fjalladýrkandi, ef það er orð. Ég virði fjöllin alltaf fyrir mér hvert sem ég fer og tengi við þau. Fjöllin sem ég ber í maga mínum eru Snæfell, Herðubreið, Dyrfjöll, Súlur, Kaldbakur og Keilir. Öll hafa þau mikla merkingu fyrir mér og fylgja mismunandi tímabilum í mínu lífi. Ásýnd þeirra og orka veita mér endalausan innblástur. Ég veit líka að ég er ekki ein um þetta og held að það sé mjög ríkt í Íslendingum að tengja sterkt við fjöllin í nætumhvefi sínu. ég hef fundið sterkt  fyrir þessari tengingu hjá fólki eftir að ég fór að gera fjallamyndirnar og þá tala margir um "fjallið mitt".

Nú er ég að vinna að fjallaseríu sem ég kalla Ísland. Nú þegar er að finna tvö fjöll í þeirri seríu á artless.is og fleiri fjöll eru væntanleg. Sum fjöllin eru tilbúin og eru bara að bíða eftir að komast í prentun. Önnur eru enn ókláruð á teikniborðinu á meðan enn önnur hafa bara verið bara skrifuð á blað og þarf að rannsaka betur. Ég hlakka til að deila fleiri fjöllunum með ykkur á næstu misserum.

Ég hef fengið þónokkrar beiðnir um að teikna hin ýmsu fjöll og er nú þegar byrjuð á nokkrum þeirra. Daglegt líf og skyldur hafa aðeins hægt á ferlinu og lokafrágangi en ég finn fyrir auknum krafti með hækkandi sól og fuglasöng.

 Hvaða fjall berð þú í maganum?

 

Hér eru skemmtileg lokaorð úr fyrri þættinum Fjöllin hafa vakað:

"Viðhorfin til fjalla bera vitni um þróun og stöðuga mótsagnakennd. Þau eru ýmist fögur eða ljót, merkileg eða ómerkileg. Við speglum okkur í fjöllum. Við yfirfærum okkur sjálf á fjöllin. Finnum til smæðar eða mikilleika þegar við stöndum frammi fyrir þeim. Flest dáumst við að fjöllum í öruggri fjarlægð, höfum mynd af fjalli á stofuveggnum og eignum okkur jafnvel fjall sem fylgir okkur allt lífið. Fjall sem hefur breytt okkur og við berum í maganum. Hjá mörgum tilheyrir þetta sama fjall æskustöðvunum eða þorpinu sem þurfti að yfirgefa. Margir ánetjast fjöllum og fá ekki nóg af því að ganga upp á toppinn. Hvað sem því líður þá virðast fjöllin vera uppspretta háleitrar upphafningar og lotningar."

 

 

Snæfell, konungurinn í austri
 
         Herðubreið, drottningin í norðri

Eigið góða viku.

Skildu eftir skilaboð

Please note, comments must be approved before they are published