Íslenskur Landi & Gin

Borgarfjörður Eystri er með fallegri stöðum á landinu. Þar starfar margt kraftmikið og skapandi fólk. Hjónin Auður Vala og Helgi sem reka Blábjörg Guesthouse og  KHB Brugghús eru að framleiða íslenskan Landa og Gin sem er alveg ótrúlega gott!

Ég fékk þann heiður að hanna miðana fyrir KHB Brugghús á flöskurnar og auðvitað voru það fjöllin í firðinum fagra sem veittu mér innblástur.

Landinn á sér langa sögu á Borgarfirði og hefur mikið verið bruggaður og drukkinn þar. Mér fannst miðinn verða að vera "gamaldags". Það er að hann mætti líta út fyrir að vera á gömlum pappír, jafnvel rifnum (efri brúnin á miðanum), letrið einfalt, engar gyllingar eða aðrar vísanir í lúxus, enda er þetta er strangheiðarlegur Landi, ekkert prjál eða snobb. Innan á miðanum er svo fjallahringurinn á Borgarfirði Eystra teiknaður með með svörtum penna eins og maður stæði við útsýninsskífuna uppi á Álfaborginni fyrir miðjum firði og horfði yfir.

 

Landi - Mynd: Steinrún Ótta Stefánsdóttir
Mynd: Steinrún Ótta Stefánsdóttir

 

Nafnið á KHB Brugghús er fengið frá gamla Kaupféalginu sem rekið var í húsinu þar sem landinn er bruggaður.  Húsið er merkilegt fyrir þær sakir að það á sér um 100 ára samfellda verlsunarsögu, þá lengstu á Íslandi. 

Þegar kom að því að hanna miðann á KHB Gin flöskuna varð Dyrfjallatindurinn strax fyrir valinu.  KHB Brugghús stendur niðri við gömlu Bryggjuna og Dyrfjallatindurinn trónir ávalt yfir. Fyrirmyndin af tindinum var unnin útfrá rúmlega 100 ára gamalli ljósmynd sem hékk í ramma fyrir ofan peningaskápinn á skrifstofu Kaupfélagsstjórans.

Mynd: Steinrún Ótta Stefánsdóttir
Mynd: Steinrún Ótta Stefánsdóttir
 

Nýlega fékk KHB Brugghús flotta umfjöllun í þættinum Að austan á sjónvarpsstöðinni N4 þar sem rætt er um Brugghúsið og þar má sjá flottar svipmyndir frá Borgarfirði og skemmtilegt viðtal við þessi mögnuðu hjón.

 

  

Það er gaman að þessu!

 

 

 

Skildu eftir skilaboð

Please note, comments must be approved before they are published