Skipulagsdagatal artless - The Saga -

Gleðilegt ár!

Mig langar aðeins að taka saman ferðalagið mitt síðustu ár og hvernig hönnun dagatalanna hefur haft frekar mikil áhrif á það að artless varð að veruleika.

2016, þegar ég var í skólanum að læra grafíska hönnun þá ákvað ég að búa til skipulagsdagatal handa systur minni í jólagjöf. Markmiðið var að það YRÐI AÐ VERA SMART og að hægt væri að skrifa punkta inn hjá dagsetningunum og svo smá aukapláss fyrir minnisatriði, lista eða kveðjur. 

Ég tók mér langann tíma í hönnunina og leyfði mér að finna út stærð sem gott væri að vinna með. Stærðin á letrinu varð að passa og og hvaða leturgerð/ir ég ætlaði að nota, hvernig átti að hengja það upp o.s.fv.

Ég var á fullu í vatnslitum og langaði að prófa að vinna með það og valdi uppáhalds leturgerðirnar mínar á þeim tíma Didot og Futura.

 

 

Systir mín góða fékk dagatalið í jólagjöf. Þeir sem heimsóttu hana spurðu hvar hún hefði fengið dagatalið og úr varð að ég lét prenta helling sem ég seldi fyrir slikk til vina og vandamanna.

2017, þegar líða fór að jólum fór ég að fá fyrirspurnir frá fólki um að gera nýtt dagatal því það væri orðið háð því að skrifa inná dagana og hafa skipulagið sjónrænt fyrir framan sig. AUÐVITAÐ gekk ég í málið og hannaði nýtt sem var eins sett upp en með öðruvísi formum og mynstrum. Ég ákvað að ég skildi prenta slatta sem þá seldist fljótt upp. Persónulega held ég alltaf mikið uppá þetta dagatal því augljóslega má sjá, eftir á, hvernig stíllinn minn hefur verið að þróast...

 

 

2018, var ég í miklu stuði og hannaði dagatal sem seinna átti eftir að breytast í svo miklu meira... Ég prentaði upplag og seldi eins og venjulega en þegar leið á árið langaði mig að gera meira með það og vinna með formin áfram í höndunum. Svo úr varð að ég fékk formin skorin út í tré og fór að setja þau saman og þannig urðu veggverkin til. Árið 2019 fór ég síðan með veggverkin og sýndi á Hönnunarmars í Reykjavík og það var alveg rosalega gaman og gefandi og mikil innspýting fyrir konu með hönnunardrauma. Í kjölfarið fékk ég ma. að hanna disk fyrir Hátíðarkvöldverð Klúbbs Matreiðslumeistara í Hörpunni 2020 og það var sjúlklega gaman!

 

Dagatal 2019

Hátíðarkvöldverður

 

2019 reyndist síðan vera ár mikilla breytinga og við fjölskyldan ákváðum að flytja til Egilsstaða tímabundið. Nú erum við búin að kaupa okkur hús og erum líklega ekki á förum á næstu árin. Dagatalið fyrir 2020 var unnið  í risinu í húsinu þar sem við leigðum fyrst um sinn og út frá litapælingum frekar en formfræði í það sinn. Eftir jólin bauðst mér að að deila skrifstofuhúsnæði og setti upp skrifstofu fyrir DUO. Það sem hefur komið á óvart er hvað DUO. fær mörg skemmtileg og fjölbreytt hönnunarverkefni. Hér fyrir austan er fólk klárlega með drauma og framtíðarsýn!

 

 

2020 kviknaði hugmyndin um að setja upp vefverslun það sem ég gæti verið með mína hönnun. Það krafðist mikillar vinnu að telja sig inná að maður gæti gert þetta og undirbúningsvinnan maður minn, uppsetning vefsíðunnar (sem ég fékk góða aðstoð við, Takk VILDA), hönnun, framleiðsla, ákveða umbúðir, kaupa inn og fá sent austur það sem ekki var hægt að græja hér. Það hafðist og artless opnaði 4.september. Ég er í skýjunum með móttökurnar og hefði held ég aldrei getað ímyndað mér hvað þetta hefur gengið vel. Skipulagsdagatalið í ár fékk smá andlitslyftingu þar sem ég breytti leturtýpunni í það allra flottasta letur sem ég veit um og litirnir fengu að fylgja straumum í innanhússhönnun þessi misserin og fékk það að vera með í Hátíðarblaði Húss og Híbýla núna um jólin. Skipulagsdagatal artless verður á tilboðsverði á meðan birgðir endast.

nóv-dagatal artless 2021

 

Takk fyrir 2020 með allt þitt.

Komdu fagnandi 2021!

 

www.artless.is

Skildu eftir skilaboð

Please note, comments must be approved before they are published